*

sunnudagur, 25. október 2020
Innlent 23. september 2020 19:20

Dregur úr eignamyndun Íslendinga

Eignir íslenskra fjölskyldna námu nærri 7,4 billjónum króna í lok árs 2019, en þar af nam eiginfjárstaðan tæplega 5,2 billjónum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Eignamyndun íslenskra fjölskyldna var minni á síðasta ári en síðustu ár þar á undan að undanskildnu árinu 2013 að því er fram kemur í samantekt Hagstofu Íslands, og nam hækkun eiginfjárstöðu íslenskra fjölskyldna því 9,1% á árinu. Þar með var eigið fé fjölskyldna landsins komið í 5.176 milljarða króna.

Skuldir íslenskra fjölskyldna jukust á árinu um 7,3%, þannig að eignaaukningin nam 8,6% í heildina. Fór hún þá úr 6.855 milljörðum króna í 7.442 milljarða króna á árinu, eða með öðrum orðum úr tæplega 6,9 billjónum króna í ríflega 7,4 billjónir króna.

Tekjuhæstir eiga eilítið minna hlutfall eignanna

Eignir tekjuhæstu 10% þjóðarinna námu 3.267 milljörðum króna, eða tæplega 3,3 billjóna króna, sem er um 43,9% heildareignanna, sem er eilítið minna hlutfall en árið 2018 þegar hlutfall þeirra var 44,6% af heildareignunum.

Skuldir sama hóps námu 882 milljörðum króna sem er um 38,9% heildarskuldanna, sem námu í lok árs 2019 2.266 milljörðum króna, eða tæplega 2,3 billjónum króna. Þar undir falla fasteignaskuldir, ökutækja-, náms-, yfirdráttar- og kreditkortalán.

Skuldir hjóna með börn jukust mest, eða um 7,9%, næst mest einstæðra foreldra eða um 7,6%, einstaklinga um 7,4% og loks jukust skuldir hjóna án barna um 6,3%. Hæsta hlutfall eigna fjölskyldna á Íslandi var bundið í fasteignum, eða 75,9%, bankainnistæður námu 11,1% heildareignanna, verðbréf námu 7,5% eignanna og loks voru 4,3% bundin í ökutækjum.