Einkaneysla óx um 5,8% að raungildi á þriðja ársfjórðungi frá sama tíma í fyrra og er það minnsti vöxtur frá rúm tvö ár eða frá fjórða ársfjórðungi 2002. Bendir það til þess að heldur geti verið að hægja á aukningu neysluútgjalda þó erfitt sé að draga of miklar ályktanir af einum ársfjórðungi. Einkaneysla á 3. fjórðungi þessa árs var um 58% af vergri landsframleiðslu sem er nokkuð fyrir neðan meðaltal áranna frá 1997 og mun lægra hlutfall en þekktist á árunum 1999 til 2000.

Einkaneysla er langstærsti liðurinn í þjóðarútgjöldum og þróun hennar skiptir því mestu máli fyrir hagvöxt þegar til skemmri tíma er litið.

Samneyslan óx um 2,4% að raungildi á 3. ársfjórðungi 2004 frá sama tíma í fyrra, en vöxturinn er litlu meiri en áætlanir ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir á kjörtímabilinu, eða 2% á ári. "Ljóst er að ef ríkinu tekst að hemja vöxt samneyslunnar mun það draga úr þenslu og þar af leiðandi leggja minni byrðar á peningamálastefnuna í landinu," segir í Hálffimm fréttum KB banka.