Helmingi færri íbúar Suður-Ameríku lifa undir fátæktarmörkum í dag en um aldamótin. Í nýrri skýrslu Sameinuðu Þjóðanna kemur fram að rúmur fjórðungur íbúa álfunnar lifi undir fátæktarmörkum, eða á undir 500 krónum á dag. Þessu greinir RÚV frá.

Samkvæmt því glíma 56 milljónir manna ekki lengur við sára fátækt, en um aldamót voru tæp 42% íbúa undir fátæktarmörkum í Suður Ameríku. Hins vegar búa mjög margir enn við fátækt og þeim sem lifa á jafnvirði rúmlega eitt þúsund íslenskra króna á dag hefur fjölgað um 3,5% á sama tímabili. Samkvæmt skýrslunni búa um 200 milljónir manna, tæplega 38% íbúanna við stöðuga óvissu og mega ekki við áföllum.