Hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi þessa árs virðist alfarið hafa verið knúinn áfram af vexti vinnuafls. Vöxturinn var 5,0% en á sama tíma fjölgaði starfandi um 4,9% og meðalfjöldi vinnustunda á viku um 1,2%, segir greiningardeild Glitnis og virðist sem dregið hafi úr framleiðni á fyrsta ársfjórðungi.

?Nú eru nokkrar sveiflur í mælingum Hagstofunnar á bæði fjölda starfandi, hagvexti og vinnutíma sem gera það að verkum að traustari niðurstöður fást þegar tekin eru meðaltöl yfir lengri tíma. Þá sést að eftir því sem liðið hefur á hagvaxtartímabilið hefur hlutdeild vaxandi vinnuafls aukist en dregið úr þætti framleiðninnar," segir greiningardeildin.

Hún kveður það eðlilegt að á fyrstu stigum hagvaxtartímabils og eftir ládeyðu í efnahagslífinu reynist framleiðnivöxturinn mikill. ?Fyrirtæki nýta þá betur vinnuaflið sem þau þegar hafa áður en þau fara í ráðningar á nýju. Þegar vinnumarkaðurinn er hins vegar orðinn mjög spenntur og atvinnuleysi lítið kemur það oft niður á framleiðnivextinum. Skýringin er ef til vill sú að hæft vinnuafl er vandfundið til verka og mikill tími fer í að þjálfa fólk til nýrra verka."

Telja má líklegt að framleiðnivöxtur verði lítill í íslensku efnahagslífi á næstunni. ?Komið er að niðursveiflu og reynslan sýnir að margur atvinnurekandinn veigrar sér við að draga úr fjölda starfsmanna, a.m.k. á fyrstu stigum sveiflunnar og þannig koma minnkandi umsvif fram í minni framleiðnivexti," segir greiningardeildin.

Framleiðni vinnuafls á Íslandi er í rétt í meðallagi ef borið er saman við önnur OECD lönd. ?Leiðin til aukinnar velmegunar þjóðarinnar felst í aukinni framleiðni enda vinnuaflið því sem næst fullnýtt. Hægur framleiðnivöxtur er áhyggjuefni í þessu ljósi," segir greiningardeildin.