Dregið hefur hratt úr framleiðnivexti vinnuafls hér á landi að undanförnu, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Framleiðnivöxturinn, sem var afar mikill á árinu 2004 og mældist ríflega 8%, var kominn undir 2% í byrjun þessa árs. Segja má að þetta sé afturför þar sem hagkerfið þarfnast framleiðnivaxtar, en hið íslenska vinnuafl er fullnýtt; atvinnuþátttaka er mikil, atvinnuleysi nánast ekkert og vinnudagurinn langur," segir greiningardeildin.

Hún segir að verðmætasköpun á hverja unna vinnustund sé nokkuð lítil hér á landi í alþjólegum samanburði og ljóst að færi þjóðarinnar til aukinnar velmegunar felst í aukinni framleiðni en greiningardeildin bendir á að það sé algengt að vöxtur framleiðni sé mikill í upphafi hagsveiflu en úr þeim vexti dragi þegar á sveifluna líður.

?Á sama tíma og dregið hefur úr framleiðnivextinum hefur hraði launahækkana aukist. Laun hækkuðu um tæplega 5% á árinu 2004 sem var undir vexti framleiðni á þeim tíma. Launahækkanir voru hins vegar komnar í ríflega 7% í upphafi þessa árs og talsvert yfir framleiðnivexti," segir greiningardeildin og heldur áfram:

?Í muninum felst vaxandi verðbólguþrýstingur og ástæða þess að hluta a.m.k. að verðbólgan mælist nú 8%. Vegna lítils framleiðnivaxtar er mun minni innistæða fyrir þeim launahækkunum sem nú sjást á vinnumarkaði í þeim skilningi að framleiðnivöxtur styður þær ekki og því er ólíklegra að þær skili sér í vaxandi kaupmætti.?

Greiningardeildin segir að leiðin til aukinnar velmegunar felist meðal annars í því að leita leiða til að þjóðin eyði tíma sínum og orku í verðmætari störf. ?Umskipti hagkerfisins á undanförnum árum þar sem ný störf hafa myndast í greinum á borð við fjármálaþjónustu hefur fært okkur aukna framleiðni. Lykill að því að lenda hagkerfinu mjúklega og að næsta hagvaxtarskeið verði farsælt er að haldið sé áfram á þeirri braut kerfisbreytinga sem staðið hafa yfir á undanförnum árum. Með þeim hætti má auka framleiðni í íslenskum þjóðarbúskap."