Stuðningur við ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks mælist 49,3% í könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka og stuðningi við ríkisstjórnina. Þetta er nokkur samdráttur frá fyrri könnun en þá mældist stuðningurinn 54,8%. Niðurstöður könnunarinnar leiðir í ljós að dregið hefur úr fylgi við alla flokka nema Framsóknarflokk og VG.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 27,9% borið saman við 29,7% í síðustu mælingu; Fylgi Framsóknarflokksins mælist 18,1% en það var 16,7% í síðustu mælingu. Þá mælist Samfylkingin nú með 13,0% fylgi samanborið við 13,5% í síðustu mælingu. Fylgi við VG mælist 14,4% í könnun MMR en það var 13,1% í síðustu mælingu. Björt framtíð mælist nú með 11,7% fylgi borið saman við 12,3% í síðustu mælingu og Pírataflokkurinn mældist nú með 7,1% fylgi, borið saman við 8,4% í síðustu mælingu.

Af öðrum flokkum má nefna að Dögun mælist nú með 2,4% fylgi, Hægri grænir með 2,2% fylgi, Flokkur heimilanna með 0,8% fylgi, Lýðræðisvaktin með 0,7% fylgi, Regnboginn með 0,6% fylgi, Sturla Jónsson með 0,1% fylgi, Landsbyggðarflokkurinn með 0,1% og Alþýðufylkingin með 0,1% fylgi.

Könnunin var framkvæmd dagana 9. til 14. ágúst síðastliðinn og svöruðu 914 einstaklingar, 18 ára og eldri.