Gjaldeyriseignir bankastofnana námu í maí um 81 milljarði króna umfram gjaldeyrisskuldir þeirra, að sögn greiningardeild Glitnis.

?Dregið hefur aðeins úr nettó gjaldeyrisstöðu bankastofnana frá því hún náði hámarki í marsmánuði í um 93 milljörðum króna. Nettó gjaldeyrisstaða bankastofnana tók að vaxa umtalsvert undir lok síðasta árs en á þeim tíma töldu flestir spekúlantar í efnahagsmálum vaxandi líkur á verulegri gengislækkun krónunnar. Raunar setur Seðlabankinn þær skorður við gjaldeyrisstöðu hverrar fjármálastofnunar að hún megi ekki fara yfir 30% af eigin fé viðkomandi fyrirtækis," segir greiningardeildin.

Þó er hægt að fá undanþágu frá ef hægt er að færa rök fyrir því að tilgangur stöðunnar sé varnir gegn gengisáhættu, og ekki er ólíklegt að einhverjar bankastofnanir hafi nýtt þessa undanþágu á síðustu mánuðum, að sögn greiningardeildarinnar.

?Segja má að gengi krónunnar sé núna nokkurn veginn í takti við jafnvægisraungengi og krónan sé því hvorki ofmetin né vanmetin til lengri tíma litið. Mikill vaxtamunur við útlönd gefur þó til kynna að gengi krónunnar ætti að vera hærra um þessar mundir en raun ber vitni, en í reynd ráða fleiri áhrifaþættir ferð í þessum efnum svo sem lánstraust og stemning á mörkuðum. Gjaldeyrisstaða bankastofnana er áfram umtalsverð sem gefur til kynna að menn séu enn smeykir um að frekari gengislækkun gæti verið framundan," segir greiningardeildin.