Hagnaður Arion banka á fyrstu sex mánuðum ársins nam 5,9 milljörðum króna. Þetta töluverður samdráttur á milli ára en á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 11,2 milljörðum. Þar af nam hagnaðurinn á öðrum ársfjórðungi 4,5 milljörðum króna sem er 2,3 milljörðum minna en á sama tíma í fyrra.

Bankastjórinn Höskuldur H. Ólafsson segir í tilkynningu uppgjörið í samræmi við væntingar en afkoman á fyrsta ársfjórðungi sem var undir væntingum liti það. Þá setur gengisþróun og einskiptikostnaður hjá dótturfélagi bankans strik í reikninginn.

Tekjur lækka á milli ára

Fram kemur í uppgjörinu að rekstrartekjur lækkuðu á milli ára. Þær námu 20,8 milljörðum króna eftir fyrstu sex mánuði ársins samanborið við 24,9 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Helstu ástæðurnar eru lækkun vaxtamunar, sem m.a. er tilkomin vegna bindingar innlána, skuldabréfaútgáfu og minni virðisbreytinga á lánasafni.

Hreinar vaxtatekjur námu 12,7 milljörðum króna og er þær nokkuð lægri en á sama tíma í fyrra. Áhrifavaldurinn þar er lægri verðbólga.

Þá var arðsemi eigin fjár 8,9% samanborið við 18,8% á sama tíma í fyrra. Arðsemi af kjarnastarfsemi var 8,1% en var 11,8% í fyrra. Til samanburðar var arðsemi eigin fjár á öðrum ársfjórðungi 13,5% samanborið við 22,7% á sama ársfjórðungi árið 2012 og arðsemi af kjarnastarfsemi nam 9,9% en 11,4% á öðrum ársfjórðungi í fyrra.