Lloyd Blankfein, stjórnarformaður og forstjóri Goldman Sachs Group
Lloyd Blankfein, stjórnarformaður og forstjóri Goldman Sachs Group

Hagnaður bandaríska fjárfestingarbankans Goldman Sachs nam 2,33 milljörðum dala á fjórða ársfjórðungi. Til samanburðar nam hann 2,89 milljörðum á sama fjórðungi í fyrra og því ljóst að hagnaðurinn hefur dregist saman um 19% á milli ára. Samdrátturinn er nokkurn vegin á öllum sviðum bankans nema á fjárfestingarbankasviði.

Tekjur námu 8,78 milljörðum dala og var það 4,9% samdráttur á milli ára. Tekjuhlutinn er engu að síður yfir væntingum greiningaraðila en meðalspá Thomson Reuters hljóðaði upp á 7,71 milljarð í tekjur.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal segir bankastjórann Lloyd Blankfein vísa því á bug að fjárfestar séu varir um sig um þessar mundir í kjölfar kreppunnar. Þvert á móti muni áhættusækni þeirra aukast samhliða því sem hlutabréfamarkaðurinn rétti úr kútnum. Á sama tíma ætli bankinn að auka eigin varnir og hækka umsýslugjald í verðbréfaviðskiptum viðskiptavina.