Hagnaður Íslandsbanka nam 6,6 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Þetta er 600 milljónum krónum meira en á sama fjórðungi í fyrra þegar hagnaðurinn nam 6,0 milljörðum. Samkvæmt þessu nam hagnaður bankans á fyrstu sex mánuðum ársins 11,2 milljörðum króna borið saman við 11,6 milljarða á fyrri hluta síðasta árs. Afkoman  er í takt við áætlanir, að sögn Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka.

Dregur úr vaxtamun

Fram kemur í uppgjöri bankans að arðsemi eigin fjár var eftir skatta 17,4 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi borið saman við 18,6 milljarða á sama fjórðungi í fyrra. Lækkunin skýrist að mest af hærra eigin fé sem hefur hækkað úr 135 milljörðum króna 156 á milli ára. Hækkunin svarar til 15%.

Vaxtamunur Íslandsbanka var 3,4% borið saman við 3,6% á fyrsta ársfjórðungi og fer hann lækkandi samhliða því sem afföll á lánasafni sem keypt var frá Glitni hverfur úr bókum bankans.

Þá segir í uppgjörinu að hreinar þóknanatekjur júkust í 2,7 milljarða króna á fjórðungnum borið saman við 2,3 milljarða á sama tíma í fyrra. Á fyrstu sex mánuðum ársins námu þær 5,1 milljarði króna. Þær voru 4,4 milljarðar á fyrstu sex mánuðum síðasta árs.

Þá nam eigið fé Íslandsbanka í lok júní 155,5 milljörðum króna og hækkaði það um 15% á milli ára. Eiginfjárhlutfall er 27,4% borið saman við 26,2% í lok fyrsta ársfjórðungs.