Landsvirkjun hagnaðist um 8,5 milljónir dala, jafnvirði eins milljarðs króna, á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er talsverður samdráttur á milli ára en hagnaðurinn nam 23,4 milljónum dala á fyrri hluta síðasta árs.

Fram kemur í uppgjöri Landsvirkjunar að rekstrartekjur námu 202,9 milljónum dala, jafnvirði 24,8 milljarða króna, á tímabilinu. Tekjur námu 217,9 milljónum dala á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn nemur 6,9% á milli ára.

Rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 163,2 milljónum dala, 19,9 milljörðum króna. Hann nam 179,2 milljónum dala á sama tíma í fyrra.

Þá nam handbært fé frá rekstri 118,1 milljónum dala sem er 11% lækkun á milli ára.

Nettó skuldir lækkuðu á tímabilinu um 74 milljónir dala og námu þær í lok júní 2.429 milljónum dala, jafnvirði 296,3 milljarða króna.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir uppgjörið viðunandi en leggja verði áfram áherslu á að lækka skuldir félagsins vegna mikillar skuldsetningar:

„Rekstur Landsvirkjunar á fyrri hluta ársins hefur gengið vel. Afkoma fyrri hluta ársins er vel viðunandi í ljósi efnahagsástands í heiminum. Tekjur dragast saman um 6,9% sem að hluta má rekja til lækkandi álverðs og áhrifa þess á samningsbundið raforkuverð. Innleystar áhættuvarnir tengdar álverði höfðu jákvæð áhrif á tímabilið og við þessar aðstæður njótum við góðs af því að endursamið var við Rio Tinto Alcan um hærra raforkuverð sem ekki var tengt álverði.“

Uppgjör Landsvirkjunar