Olíuverslunin Skeljungur hagnaðist um 629 milljónir króna í fyrra. TIl samanburðar nam hagnaðurinn 823 milljónum króna árið 2010.

Fram kemur í rekstrarreikningi félagsins að sala hafi numið rétt rúmum 31,5 milljörðum króna í fyrra. Þær námu 26,3 milljarða árið á undan.

Hagnaður af reglubundinni starfsemi fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 1.739 milljónum króna og námu óreglulegar tekjur vegna sölu eigna 334 milljlónum króna.

Heildarskuldir námu 8.754 milljónum króna í lok síðasta árs, þar af voru langtímaskuldir 3.545 milljónir. Eigið fé nam 3,7 milljörðum króna. Heildareignir námu 12.461 milljónum króna á síðasta ári og eigið fé var rúmir 3,7 milljarðar. Eiginfjárhlutfall Skeljungs stóð í 29,7% í árslok.

Fram kemur í uppgjöri Skeljungs að mikil umbreyting hafi átt sér stað á rekstri og efnahag Skeljungs á undanförnum árum. Stjórnendur og starfsfólk hafi unnið að því að koma traustari stoðum undir reksturinn, breikka tekjugrundvöll félagsins og draga verulega úr fjárbindingu með sölu eigna og breyttu birgðahaldi. Þetta starf hafi skilað sér í því að nettó vaxtaberandi skuldir félagsins hafi lækkað um tæpa 7 milljarða síðan núverandi eigendur komu að rekstrinum haustið 2008.

Skoða skráningu á markað

Þá endurfjármagnaði Arion banki skuldir móðurfélagsins í febrúar á þessu ári og greiddi Skeljungur þá allar sínar skuldir við þáverandi viðskiptabanka, Íslandsbanka.

Í mars 2012 keypti Skeljungur 34% hlut í færeyska félaginu P/F Magn, sem á og rekur bensínstöðvar og dreifir olíu í Færeyjum. Velta P/F Magn nam tæpum 14,9 milljörðum króna í fyrra og var hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði um einn milljarður. Að teknu tilliti til þeirra nam hann 371 milljón króna.

Þá kemur fram í uppgjöri Skeljungs að heildareignir P/F Magn námu rúmum 7,4 milljörðum króna. Nettó langtímaskuldir námu 1.960 milljónum króna og var eigið fé  2.807 milljónir. Félögin hafa haft með sér náið samstarf um nokkurt skeið og séu umrædd viðskipti til samræmis við markmið Skeljungs og hluthafa þess að stuðla að vexti félagsins, auka verðgildi þess og jafnframt að gera það að áhugaverðari fjárfestingarkosti, m.a. vegna mögulegrar skráningar félagsins á hlutabréfamarkað.

Skeljungur hf. er að stærstum hluta, eða 94,7%, í eigu Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmundar Þórðarsonar. Aðrir hlutafar eiga 5,3%.