Hagnaður Landsafls hf á fyrstu sex mánuðum ársins nam 241 milljónum króna, samanborið við 1,38 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 403 milljónum króna samanborið við 326 milljónir króna fyrir sama tímabil árið áður.

Á tímabilinu námu rekstrartekjur félagsins samtals 529 milljónir króna.

Samkvæmt sjóðstreymi tímabilsins var veltufé frá rekstri 240 milljónir króna samanborið við 216 milljónir króna árið áður. Samkvæmt efnahagsreikningi í lok júní 2006 námu heildareignir félagsins 16,86 milljörðumr króna og bókfært eigið fé nam fimm milljörðum króna.

Matsbreyting fjárfestingaeigna nam 1,54 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2005, en er nú 360 milljónir.

Afkoma tímabilsins er viðunandi að mati stjórnenda Landsafls hf. Horfur í rekstri félagsins eru góðar á komandi misserum. Endanleg niðurstaða mun þó meðal annars ráðast af skilyrðum á fjármagnsmörkuðum og gengisskráningu íslensku krónunnar.

Landsafl hf. er fasteignafélag sem sérhæfir sig í eignarhaldi, umsýslu, rekstri og útleigu fasteigna. Markmið félagsins er að eiga og reka fasteignir í langtíma- og/eða skammtímaútleigu. Félagið hefur yfir að ráða um 125 þúsund fermetrum af húsnæði, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, iðnaðarhúsnæði, vörugeymslum o.s.frv. Viðskiptavinir félagsins eru fjölmargir, ríki og sveitarfélög, félög skráð í Kauphöll Íslands sem og ýmis önnur stór og smá fyrirtæki.