Hagvöxtur á fyrsta fjórðungi ársins nam 0,6% á Bretlandi. Samkvæmt Bloomberg var meðalspá greinenda í takt við niðurstöðurnar. Vöxturinn minnkaði snarlega frá síðasta fjórðungi síðasta árs, en þá nam hagvöxtur 2,8%, sem var þó lítillega undir væntingum.

Í Vegvísi Landsbankans segir að Englandsbanki hafi reynt að hafa örvandi áhrif á hagkerfið með vaxtalækkunum, síðast í febrúarbyrjun. Stýrivextir eru nú 5,25%, og er næsti vaxtaákvörðunardagur 10. apríl. Verðbólga í Bretlandi mælist nú 2,5%, en verðbólgumarkmið bankans er 2,0%.

Viðskiptahalli Bretlands dregst nú saman, en helstu ástæðu þess má rekja til lakrar afkomu starfsemi erlendra banka  þarlendis. Viðskiptahallinn á fyrsta fjórðungi nam um 8,5 milljörðum punda, sem er ríflega helmingur þess sem hann var á fjórða fjórðungi 2007.