Hagvöxtur mældist 9,1 prósent á þriðja ársfjórðungi í Kína. Hann var 9,5 prósent á sama tíma fyrir ári. Breska ríkisútvarpið (BBC) segir þetta ekki jákvæðar fréttir frá næststærsta hagkerfi heimsins nú þegar efnahagslífið hafi dregist saman bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu.

Næsta viðstöðulítill hagvöxtur í Kína síðustu misserin hefur verið knúinn áfram af hækkun á eignaverði og matvælum og verðbólga verið verðbólgumarkmiðum kínverska Seðlabankans. Hann hefur því gripið til aðgerða sem miðað hafa að því að draga úr verðbólgu án þess að það komi niður á hagvexti eða smiti út frá sér til annarra landa.

Verðbólga mældist 6,1 prósent í síðasta mánuði. Í júlí hafði verðbólgan ekki verið meiri í þrjú ár þegar mældist 6,5 prósent.

Á meðal aðgerðanna eru fimm stýrivaxtahækkanir á síðastliðnum tólf mánuðum auk hertari eiginfjárkvaða sem lagðar eru á banka og fjármálafyrirtæki. Aðgerðirnar hafa verið til þess fallnar að draga úr útlánavexti bankakerfisins.

BBC hefur eftir sérfræðingum að nú sé ljóst að aðgerðirnar hafi komið niður á hagvexti.