Hagvöxtur reyndist 2,9% á fyrsta ársfjórðungi og er það minnsti hagvöxtur sem mælst hefur á einum ársfjórðungi frá samdráttarárinu 2002. Hagvöxturinn er lítill í samanburði við það sem spáð hefur verið fyrir árið í heild segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Seðlabankinn spáir til dæmis 6,6% hagvexti yfir árið en fjármálaráðuneytið spáir um 5,5% hagvexti. Niðurstaðan sem birt var í morgun gefur til kynna að spár þessar séu í hærri kantinum segir í Morgunkorninu.

Dregið hefur úr hagvexti frá síðasta fjórðungi þegar hann reyndist 4,2% en mestur var hagvöxturinn 7% á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Helstu breytingar eru að í stað tiltölulega kröftugs vaxtar í útflutningi í fyrra hefur nú tekið við samdráttur. Ljóst er að hátt gengi krónunnar hefur komið niður á vexti útflutningsatvinnuveganna og birtist það í þessum tölum. "Tölurnar eru merki um það mikla misgengi sem er að skapast í hagkerfinu þar sem gríðarlegur vöxtur er í greinum sem snúa að innlendri eftirspurn en samdráttur eða stöðnun í þeim greinum sem eiga sitt undir erlendri eftirspurn. Vaxandi ójafnvægi hagkerfisins kemur einna best fram í viðskiptahallanum sem var í sögulegum hæðum á fyrsta ársfjórðungi þ.e. 14% af landsframleiðslu," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.