Töluverð færri Íslendingar eru jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum en áður, og fer hlutfall þeirra niður í 67,7% úr 80,0% í júlí 2015.

Þetta er niðurstaða könnunar MMR á viðhorfi Íslendinga til erlendra ferðamanna sem tekin var dagana 15. til 22. júlí og var heildarfjöldi svarenda 906 einstaklingar 18 ára og eldri.

Höfuðborgarbúar, karlar og tekjuhærri jákvæðari

Sýnir könnunin þónokkurn mun á viðhorfi til ferðamanna eftir búsetu, tekjum og kyni. Eru höfuðborgarbúar líklegri til að vera jákvæðir en íbúar á landsbyggðinni, þeir sem höfðu hærri heimilistekjur voru einnig líklegri til að vera jákvæðari sem og karlar voru líklegri til að vera jákvæðir heldur en konur.

Athyglisvert er að viðhorfið fer einnig eftir stjórnmálaskoðunum, en stuðningsmenn Pírata voru síður jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi en stuðningsfólk annarra flokka.

Píratar neikvæðastir

Voru 71,7% þeirra sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi, en 60,3% þeirra sem búsettir voru á landsbyggðinni. Meðal þeirra sem tilheyrðu tekjuhæsta hópnum, með milljón eða meira í heimilistekjur, sögðust 82,8% þeirra vera jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum, en einungis 54,7% þeirra sem tilheyrðu tekjulægsta hópnum með undir 250 þúsund krónur í heimilistekjur.

70,2% karla voru jákvæðir gagnvart þeim, en 65,0% kvenna. Fylgismenn Samfylkingar voru jákvæðastir gagnvart erlendum ferðamönnum, eða 85,3% en fylgismenn Pírata voru neikvæðastir eða 64,0%. Fylgismenn annarra flokka voru í kringum 70% jákvæðir.