Af þeim sem voru atvinnulausir á fjórða ársfjórðungi 2011 voru að jafnaði 2.900 manns búnir að vera atvinnulausir í 1–2 mánuði eða 1,6% vinnuaflsins. Er það sama hlutfall og svipaður fjöldi og á fjórða ársfjórðungi 2010. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands.

Þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir. Á fjórða ársfjórðungi 2011 höfðu um 2.600 manns verið atvinnulausir svo lengi eða 1,5% alls vinnuaflsins. Á fjórða ársfjórðungi 2010 voru þeir sem höfðu verið atvinnulausir ár eða lengur um 3.200 manns eða 1,8% vinnuaflsins.

Dregur úr atvinnuþátttöku

Á fjórða ársfjórðungi 2011 voru 175.700 á vinnumarkaði sem jafngildir 78,4% atvinnuþátttöku sem er lægsta hlutfall sem Hagstofan hefur mælt frá upphafi vinnumarkaðsrannsókna árið 1991. Frá fjórða ársfjórðungi 2008 hefur vinnuaflið minnkað um 6.700 manns, en það taldi þá 182.400 manns. Frá fjórða ársfjórðungi 2010 hefur fólki á vinnumarkaði fækkað um 3.100. Atvinnuþátttaka karla á 4. ársfjórðungi 2011 var 82,7% en kvenna 74%.