Kaupmáttur launa er nú hærri en hann hefur nokkurn tímann verið áður. Það er staðreynd sem margir hafa áttað sig á og það er tekið fram í greiningu Hagfræðideildar Landsbankans á launaþróun.

Launa- og kaupmáttarþróun hefur verið óvenju hagstæð á síðustu misserum eins og margir landsmenn hafa eflaust tekið eftir. „Í nóvember 2016 höfðu regluleg laun landsmanna hækkað um 9,7% síðustu 12 mánuði, sem gaf að meðaltali 8,5% kaupmáttaraukningu. Hækkun launa heldur áfram að vera mikil og hækkuðu laun t.d. um 1,1% síðustu þrjá mánuði.

Þó er tekið fram í greiningunni að það hafi heldur hægt á launahækkunum á síðustu mánuðum. 12 mánaða launahækkunartaktur í nóvember fór í fyrsta skipti undir 10% frá því í febrúar sl. en hæst fór hann upp í 13,4% í apríl í fyrra.

Er árangur í launajöfnun á undanhaldi?

Tölurnar sem Landsbankinn rýnir í gefur góða mynd af því hvernig laun hafa breyst innan hópa á vinnumarkaði. Tölur frá 2. ársfjórðungi bentu til þess að markmið kjarasamninga á almenna markaðinum um meiri hækkun launa til þeirra lægst launuðu hefðu náðst þar sem laun verkafólks höfðu hækkað mest. Þá höfðu laun hækkað mest í byggingarstarfsemi sem kom heim og saman við upplýsingar um skort á vinnuafli í greininni.

Nú er þó af sem áður var samkvæmt greiningardeildinni. Á þriðja ársfjórðungi 2016 var launahækkun í byggingageiranum sú minnsta meðal atvinnugreina. Launahækkanir verkafólks voru einnig í lægri kantinum meðal starfsstétta. Það virðist því sem nokkuð breyting hafi orðið á launamarkaðnum frá 2. til 3. ársfjórðungs í fyrra.