Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian tapaði 398 milljónum norskra króna, jafnvirði tæpra níu milljarða íslenskra króna, á fyrstu þremur mánuðum ársins. Tekjur flugfélagsins tóku hins vegar flugið. Þær námu 2,3 milljörðum norskra króna á tímabilinu og var það 25% aukning á milli ára. Þetta er betri afkoma en í fyrra en flugfélagið tapaði 406 milljónum norskra króna á fyrsta fjórðungi í fyrra.

Fimmtán prósenta verðhækkun á flugvélaolíu á fjórðungnum setti strik í reikninginn, að sögn forsvarsmanna flugfélagsins í samtali við netútgáfu norska dagblaðsins Aftenposten. Eldsneytiskostnaður jókst um 115 milljónir norskra króna af þessum sökum.

Bjørn Kjos, forstjóri Norwegian, er engu að síður bjartsýnn og býst við að nýr flugfloti sem samanstendur af sparneytnari flugvélum, muni draga úr rekstrarkostnaði.

Norwegian lagði inn risapöntun af nýjum þotum eftir áramótin. Þær eru hvorki fleiri né færri en 222 talsins og eru þetta einhver umfangsmestu flugvélakaup sögunnar.

Á meðal þeirra voru 200 þotur frá Aribus og 22 Boeing-vélar. Kaupverðið nemur 21,5 milljörðum dala, jafnvirði 2.700 milljarða íslenskra króna. Kjos sagði í samtali við Reuters-fréttastofuna á sínum tíma rétt að synda á móti straumnum þegar í harðbakkann slær og sé það í samræmi við þá stefnu að kaupa nýjar þotur þegar í harðbakkann slær.