Sparifélagið tapaði 13,9 milljónum króna á síðasta ári. Þetta er talsvert minna tap en árið 2011 þegar tapið nam 42,8 milljónum króna. Framkvæmdastjóri Sparifélagsins er fjármálaráðgjafinn Ingólfur H. Ingólfsson. Félagið hefur unnið að stofnun nýs banka, Sparibanka, og hefur Sparifélagið m.a. falast eftir því að kaupa eignarhluti Bankasýslu ríkisins í sparisjóðum sem fallið hafa í skaut ríkisins og auka eigið fé þeirra. Fram kemur í uppgjörinu að þróunarkostnaður vegna Sparibankans nam 55,2 milljón króna í fyrra borið saman við tæplega 47,4 milljónir króna árið 2011.

Fram kemur í uppgjöri Sparifélagsins að rekstrartekjur námu 11,8 milljónum króna í fyrra samanborið við tæpar 15,3 milljónir árið 2011. Eignir Sparifélagsins námu 186,6 milljónum króna á síðasta ári. Þær námu 213,9 milljónum króna árið 2011. Af fastafjármunum er viðskiptamannagrnnur upp á tæpar 96 milljónir króna. Eigið fé félagsins nam 164,8 milljónum króna um síðustu áramót samanborið við 178,8 milljónir króna undir lok árs 2011.

Þá námu skuldir 21,8 milljónum króna borið saman við 35,1 milljón króna árið 2011. Stærstur hluti skuldanna eru viðskiptaskuldir upp á 17,2 milljónir króna.

Í uppgjörinu kemur fram að fjöldi hluta í félaginu voru við árslok 222,6 milljónir talsins. Fram kom í umfjöllun VB.is um Sparifélagið og viðtali við Ingólf í vikunni að félagið sé búið að fjármagna stofnun nýs banka að fullu og hafi erlendur fjárfestir skrifað sig fyrir því. Hann muni því eiga um 80% hlut í Sparifélaginu.