Tekjuhalli hins opinbera nam 30 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 42 milljarða króna tekjuhalla á sama tíma árið 2009.

Tekjuhallinn mældist 8,0% sem hlutfall af landsframleiðslu ársfjórðungsins en var 11,1% í fyrra. Sem hlutfall af tekjum hins opinbera mældist hallinn 18,6% samanborið við 28,3% í fyrra.

Í þjóðhagsreikningum Hagstofunar um fjármál hins opinbera á 2. ársfjórðungi segir að bætt afkoma skýrist fyrst og fremst af auknum skatttekjum sem hafi hækkað verulega á milli umræddra tímabila. Á sama tíma hefur dregið verulega úr fjárfestingu hins opinbera, eða um tæplega þriðjung.

Heildartekjur hins opinbera námu 162 milljörðum króna á 2. ársfjórðungi samanborið við 147 milljarða króna á sama tíma 2009. Um 6,6 milljarða króna tekjuaukning varð af tryggingagjöldum og um 5,7 milljarða króna af tekjusköttum.

Heildarútgjöld hins opinbera jukust um 2,3% á milli ársfjórðunga og námu á 2. ársfjórðungi rúmlega 193 milljörðum króna. Vaxtakostnaður jókst um 8,6 milljarða króna.

Heildarskuldir nema 106% af landsframleiðslu

Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.636 milljörðum króna í lok 2. ársfjórðungs. Það samsvarar 106% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Eignir umfram skuldir voru neikvæðar um 546 milljarða króna í lok ársfjórðungs, um 35,4% af áætlaðri landsframleiðslu.

„“Til samanburðar var hrein peningaleg eign ríkissjóðs neikvæð um 27,5% af landsframleiðslu á sama ársfjórðungi 2009 en aftur jákvæð um 2,5% af landsframleiðslu á þeim ársfjórðungi 2008. Samkvæmt þessu hefur hrein peningaleg eign ríkissjóðs því versnað um 583 milljarða króna á tveggja ára tímabili eða um 37,8% af landsframleiðslu. ,“ segir í frétt Hagstofunar.