Samkvæmt væntingavísitölu Gallup í mars hefur dregið úr tiltrú neytenda og lækkar vísitalan um 10 stig milli mánaða. Vísitalan er á svipuðu reiki og á sama tíma í fyrra. Svo virðist sem mat almennings á ástandi efnahagslífsins hafi dregist hvað mest saman frá fyrri mánuði auk þess sem væntingar um horfur í efnahags- og atvinnumálum 6 mánuði fram í tímann lækka talsvert.

Líklegt er að neikvæð umræða um efnahagsmál á síðustu vikum, miklar sveiflur á hlutabréfamarkaði og veiking krónunnar hafi hjálpað til við að draga úr tiltrú neytenda.

Það sem vekur hins vegar athygli er að þrátt fyrir að dragi úr væntingum þá virðist sem íslenskir neytendur hyggi á stórkaup á næstu misserum sem aldrei fyrr. Um 20,4% aðspurðra telja mjög líklegt eða frekar líklegt að þeir muni kaupa bíl á næstu sex mánuðum sem verður að teljast nokkuð athyglisvert í ljósi þess að metinnflutningur var á bifreiðum í fyrra.

Íslendingar skipuleggja einnig utanlandsferðir af miklum krafti og telja um 82% aðspurðra mjög eða frekar líklegt að þeir muni ferðast til útlanda á næstu 12 mánuðum. Vísitala fyrirhugaðra utanlandsferða hækkar um 2% frá því í desember 2005.

Ef marka má vísitölu Gallup um fyrirhuguð húsnæðiskaup má vænta talsverðrar eftirspurnar á fasteignamarkaði á næstu misserum. Um 10% aðspurðra telja mjög eða frekar líklegt að þeir muni kaupa hús eða íbúð á næstu sex mánuðum og hækkar vísitalan um 32% frá því í desember og hefur aldrei mælst hærri.

Þessi niðurstaða kemur þvert á væntingar markaðsaðila um að heldur muni draga úr umsvifum á fasteignamarkaði á næstu misserum.