Margt bendir til þess að róast hafi á fasteignamarkaði, segir greiningardeild Íslandsbanka, og telur hún að fólk hafi frestað íbúðakaupum um jólin.

?Reikna má með minni umsvifum og meira jafnvægi á íbúðamarkaði á þessu ári. Gerum við ráð fyrir að íbúðaverð hækki hóflega eða standi í stað á árinu," segir greiningardeildin.

Velta á íbúðamarkað dróst saman í desember og var 620 kaupsamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í síðasta mánuði, samanborið við 735 samninga í nóvember, samkvæmt upplýsingum greiningardeildarinnar.

Á sama tíma í fyrra, sem var metmánður, var 1.178 kaupsamningum þinglýst á svæðinu.

Veltan á íbúðamarkaði samtals nam 17,9 milljörðum króna í desember og meðalupphæð á hvern kaupsamning var því 28,9 milljónir króna.

?Það er hærri upphæð á hvern kaupsamning en dæmi hafa áður verið um en upphæðin hefur hækkað verulega síðustu misserin eða um 37% frá sama tíma ári áður," segir greiningardeildin.

?Í spá okkar frá því í maí í fyrra var gert ráð fyrir að fermetraverð á höfuðborgarsvæðinu færi að meðaltali yfir 200 þúsund krónur í kringum áramótin og sú spá hefur gengið eftir."