Í Hálffimm fréttum KB banka í dag er bent á að verulega hefur dregið úr umsvifum á fasteignamarkaði og var 165 nýjum kaupsamningum þinglýst á Höfuðborgarsvæðinu í síðastliðinni viku. Umsvif á fasteignamarkaði hafa dregist saman um 35 til 40% síðan síðasta vetur er um 250 samningum var þinglýst að meðaltali á viku.

Jafnlítil umsvif hafa ekki verið á fasteignamarkaði síðan um verslunarmannahelgi en velta dregst oft saman yfir hásumarið vegna sumarfría. Greiningardeild KB banka telur að líkur séu á frekari samdrætti á fasteignamarkaði er nær dregur jólum þegar áhrif hækkandi vaxta fer að gæta í fasteignaverði.