Innlend útlán innlánsstofnana voru nánast óbreytt milli mánaða í október og dregur því enn úr útlánavexti í hagkerfinu, að sögn greiningardeildar Kaupþings banka.

?Samdráttur í útlánavexti í bankakerfinu gefur til kynna að heldur hafi dregið úr umsvifum í hagkerfinu að undanförnu. Til að mynda ætti það að gefa vísbendingu um minnkandi einkaneyslu á næstu misserum. Það vekur einnig athygli að útlánavöxt í október má að miklu leyti rekja til erlendra aðila,? segir greiningardeildin.

Þá segir hún að á undanförnum tólf mánuðum hafi útlán til innlendra aðila aukist um tæp 40% og hefur tólf mánaða aukningin ekki verið lægri síðan í janúar 2005.

?Hins vegar jukust útlán innlánsstofnana til erlendra aðila talsvert milli mánaða eða um 7,5%,? segir greiningardeildin.

Skuldir heimilanna jukust um níu milljarða króna í október eða um 1,4%. ?Hins vegar lækkuðu útlán fyrirtækja í hagkerfinu um 14 milljarða króna milli mánaða sem samsvarar um 1% samdrætti. Eins og áður sagði var mest aukning í útlánum innlendra innlánsstofnana til erlendra aðila í mánuðinum,? segir greiningardeildin.

?Yfirdráttarlán drógust saman um 1% milli mánaða og munar mest um samdrátt hjá fyrirtækjum en á síðustu 12 mánuðum hafa yfirdráttarlán aukist um tæp 17% eða um 10% að raunvirði. Yfirdráttarlán heimilanna jukust hins vegar í október eða um 1,2%. Samanborið við október í fyrra þá hafa yfirdráttarlán heimilanna reyndar aðeins aukist um 0,9% milli ára eða lækkað að raunvirði um rúm 6%,? segir greiningardeildin.