Seðlabankinn birti tölur yfir íbúðalán bankanna í gær. Útlán bankanna í maí námu tæpum 7,5 milljörðum króna og eru það lægstu útlán í einum mánuði frá því að bankarnir komu inn á íbúðalánamarkað í ágúst 2004. Fjöldi lána er komin í 36.801 og meðaltalsfjárhæð láns er rétt um 9,5 milljónir króna, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Hún segir að samdráttur hefi verið í mánaðarlegum útlánum bankanna á þessu ári miðað við það sem var raunin á síðasta ári. Til samanburðar má nefna að útlán bankanna í maí í fyrra námu 19,1 milljarði króna.

"Minni útlán skýrast að miklu leyti af því að endurfjármögnum íbúðalána er að stórum hluta lokið og því má gera ráð fyrir að meirihluti lána bankanna nú séu ný lán Auk þess er skýringuna að finna í auknu aðhaldi í útlánsstefnu bankanna en þeir hafa lækkað hámarkslán sín og hert skilyrði fyrir útlánum. Ekki hafa enn verið birtar tölur um hvernig útlán hjá Íbúðalánasjóði þróuðust í maí en mánaðarskýrsla sjóðsins verður birt á næstu dögum," segir greiningardeildin.

Flest bendir til þess að íbúðamarkaður muni kólna verulega á næstu misserum. ?Mikið framboð er framundan af íbúðum og á eftirspurnarhlið blasir við vaxtahækkun og minna aðgengi að lánum. Verðbólguskotið sem nú gengur yfir dregur auk þess úr kaupmætti neytenda. Mjög líklegt er því að íbúðaverð muni staðna og/eða lækka þegar horft er til næsta árs," segir greiningardeildin.