Væntingarvísitala Gallup lækkaði um rúm 12 stig á milli mánaða nú í apríl. Vísitalan mælist nú 82,7 stig. Lækkunin kemur í kjölfar talsverðrar hækkunar vísitölunnar í mars en þá stóð hún í 94,8 stigum. Greining Íslandsbanka segir lækkunina koma á óvart enda stingi hún í stúf við við nýlega þróun annarra hagvísa er varða stöðu heimila. Þeir sem eru með lægri tekjur eru svartsýnni en hinir.

Greining Íslandsbanka rýnir væntingarvísitöluna í Morgunkorni sínu í dag. Deildin segir að almennt séu neytendur svartsýnni eftir því sem tekjur þeirra eru lægri. Á sama hátt eru meiri sveiflur í væntingum þeirra til efnahags- og atvinnuástandsins með lægri tekjum.

Í Morgunkorninu segir:

„Þessi þróun er vel sýnileg nú í apríl, og virðist sem svartsýnin hafi aukist all verulega hjá tekjulægsta hópnum. Þannig mældist undirvísitala fyrir svarendur með tekjur undir 250 þúsund krónum á mánuði 48,0 stig nú apríl samanborið við 93,4 stig í mars, og lækkar því vísitalan um rúm 45 stig á milli mánaða. Á sama tíma lækkar undirvísitala þeirra sem hafa tekjur yfir 550 þúsund krónum á mánuði um tæp 14 stig, og fer niður í 98,9 stig.“