Verðbólguhjöðnun í síðustu verðbólgumælingu Hagstofunnar og þróun mála í Evrópu síðustu vikurnar hafa aðeins mildað vaxtahækkunartón Peningastefnunefndar Seðlabankans. Nú er búið að taka út þá setningu sem hefur verið allsráðandi í rökum nefndarinnar fyrir vaxtahækkun upp á síðkastið að dragi ekki úr verðbólgu á næstu mánuðum verði að óbreyttu ekki komist hjá frekari hækkun nafnvaxta til að tryggja að verðbólgi leiti í markmið.

Þetta segir Greining Íslandsbanka í Morgunkorni sínu um 0,25 prósenta hækkun stýrivaxta í morgun. Hún spáir þrátt fyrir það sömu stýrivaxtahækkun á vaxtaákvörðunarfundi Peningastefnunefndar í ágúst.

Hækkunin var í takti við það sem markaðsaðilar hafa spáð upp á síðkastið.

Greining Íslandsbanka rifjar upp að í þjóðhagsreikningum fyrir fyrsta fjórðung ársins hafi verið gefnar vísbendingar um að töluverður kraftur sé í hagkerfinu um þessar mundir og batinn á vinnu- og fasteignamarkaði verði æ skýrari. Á móti vegi mikil lækkun verðbólgunnar sem fór úr 6,4% í 5,4%. Greiningin segir líkur á að horfur séu á að verðbólguspá Seðlabankans fyrir annað ársfjórðung verði of há.

„Hefur sú þróun eflaust orðið til þess að vaxtahækkunin varð ekki meiri nú en raun ber vitni,“ segir í Morgunkorninu.