Í júlí dró nokkuð úr verðbólgu á Íslandi miðað við júnímánuð. Þannig var verðbólga 3,6% í júlí en hún var 3,9% í júní og vantaði einungis 0,1% til að rjúfa efri þolmörk peningastefnunnar. Vísitala neysluverðs í júlí lækkaði um 0,47% frá fyrra mánuði. Þetta er nokkuð meiri lækkun en viðskiptabankarnir þrír voru að spá en þeir spáðu lækkun á bilinu 0,2% til 0%. Meðalspá þeirra var lækkun upp á 0,1%. Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,44% milli mánaða. Eigið húsnæði í vísitölunni lækkaði um 0,6% (vísitöluáhrif -0,08%). Markaðsverð á húsnæði hækkaði þó um 0,7% (0,09%) en vaxtalækkun í kjölfar breytingar á kerfi húsnæðislána hjá Íbúðalánasjóði leiddi til lækkunar árgreiðslu um 1,35% (-0,17%). Sumarútsölur eru víðast hafnar og lækkaði verð á fötum og skóm um 7,8% (-0,45%). Þá lækkaði verð á bensíni og olíu um 2,3% (-0,1%).

Verðbólgan hefur komið þeim, sem spá fyrir um verðbólguþróun á Íslandi, nokkuð á óvart á undanförnum mánuðum en enginn bjóst við þessu verðbólguskoti sem gæti nú verið að síga niður. Helsta ástæðan fyrir skotinu má rekja til hækkun heimsmarkaðsverðs á olíu og meiri hækkunar húsnæðisverðs en vænst var. Auk þess virðist sem að hækkun á eignamörkuðum og mikill útlánavöxtur hafa aukið verðbólguþrýstinginn umfram það sem vænta mátti.

Verðbólga án húsnæðis var 2,7% í júlí. Það dró nokkuð úr 12 mánaða hækkun húsnæðis í júlí miðað við mánuðina á undan. Þannig var verðbólgan 8,9% samanborið við 11,4% í júní og 9,6% í maí. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,1% sem jafngildir 4,6% verðbólgu á ári (án húsnæðis 3,2%).