Verðbólga mældist 4,2% í Kína í nóvember. Þetta er talsverð hjöðnun frá 5,5% verðbólgu í mánuðinum á undan. Tölur sem þessar hafa ekki sést síðan í september í fyrra.

Erlendir greiningaraðilar benda á að dregið hafi úr vexti framleiðslu, hún jókst um 12,4% í mánuðinum samanborið við 13,2% í október. Þá hefur fasteignaverð lækkað.

Sérfræðingar segja í samtali við netútgáfu Wall Street Journal í dag samdráttinn ekki snarpan, þvert á móti séu tölurnar vísbendingar um að hægja sé rólega á kínverska hagkerfinu. Það hefur glímt við ofhitnun undanfarið.

Blaðið hefur eftir Zianfang Ren og Alistair Thornton, hagfræðingum hjá IHS, að verðbólguhjöðnun geti komið niður á fasteignamarkaðinum enda geri þróunin það að verkum að fasteignakaup eru ekki jafn hagstæður fjárfestingakostur og þegar verðbólga er mikil. Þetta eru góðar fréttir fyrir fasteignamarkaðinn í Kína.

Stutt er síðan greint var frá því að verð á íbúðahúsnæði þar væri í frjálsu falli, verktakar hafi verið að setja nýbyggingar sínar í sölu á útsöluverði. Þá hafi verktakarisinn Hutchison Whampoa lækkað verð á íbúðum um 32% til að gera þær söluvænlegri.