Verðbólga mældist 2,2% í Kína í júní. Jafn lágar verðbólgutölur hafa ekki sést þar í landi í tvö og hálft ár. Til samanburðar mældist 3,0% ársverðbólga þar í landi í maí. Fjármálasérfræðingar segja tölurnar vísbendingu um að kínvers yfirvöld geti slakað frekar á peningalegu aðhaldi til að koma í veg fyrir að hagkerfið dragist of mikið saman.

Kínverski seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti tvívegis síðasta mánuðinn til að halda hagkerfinu í horfinu.

Í netútgáfu bandaríska dagblaðsins Los Angeles Times er haft eftir Qu Hongbing, hagfræðingi hjá alþjóðabankanum HSBC, að hátt matvælaverð hafi haldið verðbólgu uppi um nokkurra missera skeið. Nú þegar verðið hafi lækkað hafi yfirvöld rými til frekari aðgerða er snúi að því að örva efnahagslífið.

Blaðið hefur jafnframt eftir aðalhagfræðingi hjá greiningarfyrirtækinu IHS Global Insight, að sú staða sé nú komin upp að hætta sé á verðhjöðnun.