Verðbólga í Þýskalandi mælist nú 1,4% en þetta kemur fram í gögnum sem komu út í dag fyrir maí mánuð. Er þetta 0,2% lægri verðbólga en spár höfðu gert ráð fyrir og 0,6% lægri en í apríl.

Verðbólga í stærsta hagkerfi evrusvæðisins er því 0,6% undir yfirlýstu markmiði evrópska seðlabankans um 2% verðbólgu á ársgrundvelli.

Er þetta lægsta stig verðbólgu í Þýskalandi á þessu ári en verðbólga náði sinni hæstu stöðu í 4 ár í febrúar þegar verðbólga mældist 2,2%.

Tölurnar renna stoðum undir orð Mario Draghi forseta Seðlabanka Evrópu frá því í gær um að verðbólguþrýstingur væri of lítill á evrusvæðinu. Tölurnar eru taldar taka pressu af Draghi sem sagði í gær að að þörf væri á áframhaldandi aðgerðum seðlabankans til að örva hagkerfi evrusvæðisins og ekki stæði til að bankinn myndi breyta stefnu sinni í peningamálum.