Uppgjör annars ársfjórðungs Íslandsbanka var kynnt í dag en þar kom m.a. fram að hagnaður ársfjórðungsins hafi numið 6,4 milljörðum króna sem er örlítið lægra á sama ársfjórðungi fyrir ári síðan en þá nam hann 6,6 milljörðum króna.

Hreinar fjármunatekjur, sem eru að stærstum hluta vegna gagnvirðisbreytinga á hlutabréfum, námu 19 milljörðum króna á ársfjórðungnum en til samanburðar voru þær um 669 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi árið 2013. Á fyrsta helmingi ársins hafa þær numið 882 milljörðum króna en námu 1.550 milljörðum á sama tímabili í fyrra.

Dregið úr hlutdeild Íslandsbanka á hlutabréfamarkaði

Viðskiptablaðið hefur þegar greint frá því að dregist hefur verulega úr hlutdeild Íslandsbanka í veltu á hlutabréfamarkaði en hlutdeild þeirra var 20,57% á fyrstu sex mánuðum þessa árs í samanburði við 27,75% sem var hlutdeild þeirra á sama tímabili í fyrra. Þá var Íslandsbanki með hæstu hlutdeild fjármálafyrirtækja í veltu á hlutabréfamarkaði en á fyrstu sex mánuðum þessa árs var Arion banki með mesta hlutdeild á hlutabréfamarkaði.

Spurð um málið segir Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka að ytri aðstæður valdi þessu að mestu leyti. „Það hefur verið rólegt á mörkuðum fyrri hluta ársins, bæði á hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum – það er svona helsta skýringin á þessu. Við erum enn mjög sterk þarna inni og með sterka markaðshlutdeild og verðum það svo sannarlega áfram,“ segir Birna.