Meirihluti franskra kjósenda er óánægður með störf forseta landsins, Emmanuel Macron. Þetta kemur fram í könnun sem gerð var í ágúst fyrir franska dagblaðið, Le Journal du Dimanche .

Samkvæmt könnuninni voru 57% kjósenda óánægðir með störf Macron, sem eru 14 prósentustigum fleiri en í síðustu könnun sem gerð var í júlí. 40% kjósenda sögðust ánægðir með störf forsetans sem  eru 14 prósentustigum færri en í júlí. Könnunin markar viss straumhvörf í vinsældum Macron sem sigraði forsetakosningarnar í landinu með 66,1% atkvæða á vormánuðum.

Þá er einnig vaxandi óánægja með störf forsætisráðherrans, Édouard Philippe. Samkvæmt könnuninni eru 47% kjósenda ánægðir með störf hans og fækkar um 9 prósentustig frá fyrri könnun.