*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 30. nóvember 2004 11:34

Dregur úr væntingum neytenda til efnahags- og atvinnuástands

Ritstjórn

Væntingavísitala Gallup lækkaði á milli október og nóvember um tæp 5 stig. Vísitalan hefur nú lækkað tvo mánuði í röð um samtals tæplega 18 stig. Lækkunin stafar af því að bæði hefur mat neytenda á núverandi ástandi versnað sem og mat þeirra á framtíðarhorfum í efnahags- og atvinnumálum. Væntingavísitalan stendur nú í 111,1 stigum og því er það enn svo, þrátt fyrir lækkun síðustu tvo mánuði, að fleiri neytendur eru bjartsýnir en svartsýnir á efnahags- og atvinnuástandið. Kemur þetta fram í niðurstöðum sem Gallup sendi frá sér í morgun.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að kennaraverkfallið er líkleg ástæða fyrir þessari þverrandi bjartsýni neytenda. "Verkfallið hafði víðtæk áhrif á heimilin í landinu og eðlilegt er að það endurspeglist í skoðunum þeirra á efnahags- og atvinnumálum. Mat neytenda á efnahagslífinu hefur versnað öllu meira en mat á atvinnuástandinu og er það nokkuð rökrétt í ljósi þeirrar kenningar að hér sé um áhrif verkfallsins að ræða. Líklegast munu áhrif þessi hverfa fljótt nú þegar verkfallinu er lokið. Þannig má reikna með því að Væntingavísitalan hækki á milli nóvember og desember," segir í Morgunkorninu.