Verulega hefur dregið úr eignaverðshækkunum á síðustu mánuðum, segir greiningardeild Kaupþings banka því samkvæmt eignaverðsvísitölu greiningardeildar hefur eignaverð hækkað um 10,8% að raunvirði síðastliðna 12 mánuði.

?Tólf mánaða hækkun eignaverðs náði hámarki um mitt ár 2005 í kringum 25%. Vísitalan hækkaði um 0,4% að raunvirði í síðastliðnum mánuði, þrátt fyrir að fasteignaverð hafi lækkað um 0,2% að nafnvirði eða um 1,6% að raunvirði. Á móti lækkun fasteignaverðs kom nokkuð hressileg hækkun gengis verðtryggðra skuldabréfa eða 3,7% og nokkur hækkun hlutabréfaverðs eða 2,4%," segir greiningardeildin.

Eignaverðsvísitölu þessari er ætlað að varpa ljósi á heildareignir almennings í fasteignum, hlutabréfum og skuldabréfum.

?Samkvæmt eignaverðsvísitölunni hafa eignir landsmanna hækkað um 183% að raunvirði síðan í byrjun árs 1996 og því nærri þrefaldast að raunvirði á síðustu 10 árum. Eignir landsmanna í húsnæði, skuldabréfum og hlutabréfum hafa skilað um 10,4% raunávöxtun á ári síðasliðinn 10 ár sem verður að teljast mjög góð ávöxtun," segir greiningardeildin.