Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, dreifði dreifimiðum kl. 17 í dag við helstu áfengisverslanir Reykjavíkur sem sýna blóðuga skattlagningu ríkisins á áfengi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heimdalli en þar segir jafnframt að hver fjármálaráðherrann á fætur öðrum, að meðtöldum þeim sem starfað hafa í nafni Sjálfstæðisflokksins, hafi hækkað skatta á áfengi. Nú sé svo komið að álagningin er komin upp úr öllu valdi og langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

„Þróunin er uggvænleg og sést best í því að greiddar eru 3704 kr. í skatta af flösku af sterku áfengi sem kostar 5000 kr. í ÁTVR en ætti með eðlilegu móti að kosta einungis 1296 kr. væri hún seld án slíkrar skattheimtu,“ segir í tilkynningunni.

Þá hvetja Heimdellingar fjármálaráðherra til þess að eiga frumkvæði að því að látið verði af sköttum af þessu tagi og að áfengisverslun verði færð í hendur einkaaðila. Það sé ekki hlutverk ríkisins að hafa forsjá með áfengisneyslu einstaklinga og hvað þá síður „að taka peninga af fólki með valdi og gefa því ekki kost á að nálgast þessar vörur án sinnar álagningar með því að refsa fólki sem slíkt gerir,“ eins og það er orðað í tilkynningu Heimdallar.

„Það þarf ekki að vera svo öfugsnúið að kaupa rauðvín með sunnudagssteikinni, jafnvel þótt það sé bágt efnahagsástand. Hinir efnameiri hafa þann kost miklu fremur en þeir sem hafa minna milli handanna þegar svo þarf alls ekki að vera.“