Hugsanlegt er að Danir fái ekki Carlsberg-jólabjórinn sinn í tæka tíð, á svokallaðan J-dag. Ástæðan er sú að í óveðrinu sem gekk yfir Danmörku í gær skemmdust lyftarar, í eigu Carlsberg, sem notaðir eru til þess að ferma flutningabílana

„10 lyftarar sem safna vörunum saman fyrir viðskiptavini okkar starfa ekki eðlilega eftir óveðrið. Við höfum því ekki getað fermt flutningabílana sem hefðu átt að byrja að keyra út í dag,“ segir Jens Bekke upplýsingafulltrúi hjá Carlsberg í samtali við Ritzau fréttastofuna.

Til stóð að ferma 49 bíla í vöruhúsinu í Fredericia í Danmörku í dag. Það tókst ekki vegna bilunarinnar.