Tilvik sem varða mögulega markaðsmisnotkun hafa komið til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu en þau hafa hingað til ekki leitt til neinna aðgerða af hálfu eftirlitsins, að sögn Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra FME. Í 55. grein laga um verðbréfaviðskipti er kveðið á um það að markaðsmisnotkun sé óheimil. Sannist markaðsmisnotkun getur það varðað sektum og allt að sex ára fangelsi.

Greint var frá því í Financial Times á mánudag að breska fjármálaeftirlitið væri að rannsaka hvort sett hefði verið af stað lygasaga um slæma stöðu HBOS, fimmta stærsta banka Bretlands, í þeim tilgangi að hafa áhrif á gengi hans. Hlutabréf í bankanum féllu um 17% sl. miðvikudagsmorgun. Stuttu síðar bar Englandsbanki til baka orðróm um að HBOS hefði verið veitt neyðarlán og talsmenn bankans vísuðu því sömuleiðis á bug að bankinn ætti í vandræðum. Í kjölfarið hóf breska fjármálaeftirlitið rannsókn á málinu og þar með á því hvort um markaðsmisnotkun hafi verið að ræða. Slík misnotkun varðar við lög.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .