Árið 2014 dreifðust tekjur á Íslandi jafnar milli fólks en áður hefur sést í lífskjararannsókn Hagstofu Íslands sem fyrst var framkvæmd árið 2004. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar .

Fimmtungastuðullinn og Gini-stuðullinn eru tvær mælingar sem Hagstofan notar til að mæla dreifingu tekna og hafa þessir stuðlar ekki mælst lægri í lífskjararannsókninni.

Fimmtungastuðullinn sýnir að tekjuhæsti fimmtungurinn var með 3,1 sinnum hærri tekjur en sá tekjulægsti en hæstur var stuðullinn 4,2 árið 2009. Gini-stuðullinn mældist 22,7 en hæstur var hann árið 2009 eða 29,6. Gini-stuðullinn væri 100 ef einn einstaklingur hefði allar tekjur samfélagsins en 0 ef allir hefðu jafnar tekjur.

Árið 2013 er nýjasta árið sem býður uppá alþjóðlegan samanburð en þá var Ísland með næst lægsta Gini- og fimmtungastuðulinn í Evrópu á eftir Noregi.

Árið 2014 voru 11,1% á Íslandi undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun en það er lægsta hlutfall sem mælst hefur í lífskjararannsókninni. Árið 2013 var þetta hlutfall lægst á Íslandi en næst komu Noregur, Tékkland og Holland.

Hlutfall þeirra sem voru undir lágtekjumörkum á Íslandi hefur ekki verið lægra eða 7,9% sem er sama hlutfall og árið 2012.