*

föstudagur, 14. maí 2021
Innlent 2. maí 2021 17:03

Drepa bréfin úr kaupaukadróma?

Skyldleika má finna með afhendingu bréfa í Landsbankanum til starfsmanna og kaupaukamála sem FME hefur gert athugasemdir við.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Viss líkindi eru með afhendingu hlutabréfa Landsbankans til starfsmanna sinna árið 2013 og með málum þar sem athugasemdir voru gerðar við kaupauka þriggja fjármálafyrirtækja. Afhending bréfanna taldist aftur á móti heimil og óljóst hvort hún kunni að hafa áhrif seinna meir, þótt jafnræðissjónarmið virðist kunni að mæla með því.

Undir lok árs 2009 náðist samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og kröfuhafa fallna Landsbankans um fjárhagsuppgjör milli nýja Landsbankans og slitabúsins. Í því fólst meðal annars að bankinn afhenti starfsmönnum, sem voru fastráðnir í lok mars 2013 eða höfðu starfað hjá bankanum áður, 500 milljónir hluta í bankanum. Tæplega tveir þriðju þess vor keyptir til baka af bankanum, samkvæmt ársskýrslu 2014 til að standa skil á skatt- og lífeyrissjóðsgreiðslum sem af gjörningnum hlutust, og áttu um um 1.400 starfsmenn samanlagt 0,78% hlut í bankanum. Bankinn sjálfur átti síðan 1,3% af eigin bréfum. Starfsmenn máttu ekki selja bréfin fyrr en að þremur árum liðnum.

Hluturinn sem kom í hlut hvers og eins starfsmanns var misstór og fór að einhverju leyti eftir stöðu og starfsaldri hvers fyrir sig. Rúmlega 1,4 milljónir hluta að nafnvirði komu í hlut þeirra þriggja sem mest fengu áður en endurkaupin áttu sér stað. Miðað við eigið fé bankans á þeim tíma má áætla að virði þeirra hluta hafi verið á tólftu milljón króna.

Ekki fjármálafyrirtæki

Munurinn á minnsta og mesta hlut var þó talsverður en í einhverjum tilfellum fengu starfsmenn aðeins nokkur þúsund hluti. Meðaltalið var um 356 þúsund hlutir að nafnverði, það er fyrir endurkaup, og meðalvirði hlutar um 1,5 milljónir króna eftir frádrátt skatta og launatengdra gjalda.

Í aðdraganda þess að hlutirnir voru afhentir starfsmönnum var Landsbankinn í samskiptum við Fjármálaeftirlitið (FME) um það hvort reglur um kaupauka, sem tóku gildi árið 2011, hefðu áhrif á gjörninginn. Þær kváðu meðal annars á um að hámarkskaupauki til starfsmanns mætti vera fjórðungur af árslaunum.

Haft var eftir Unni Gunnarsdóttur, þá forstjóra FME og nú varaseðlabankastjóra eftir sameiningu FME og Seðlabankans, að gjörningurinn félli ekki undir reglurnar. Ástæða þess væri að það væri gamli Landsbankinn, en ekki sá nýi, sem afhenti bréfin. Sá væri ekki fjármálafyrirtæki og félli því ekki undir gildissvið laganna. Þá væri að auki um einskiptisaðgerð að ræða sem horfði fram á við. Önnur hvatakerfi væru viðvarandi þar sem afkoman hvert ár hefði áhrif á útgreiðslur. Rétt er að geta þess að í skattalegu tilliti var litið svo að um starfstengd hlunnindi hefði verið að ræða og þau skattlögð sem slík. Ekki hefði hins vegar verið á ferð kaupauki sem fallið hefði undir reglur sem um þá gilda í fjármálafyrirtækjum.

Virði og endurgjald fóru ekki saman

Í ljósi þessa er áhugavert að máta atvik málsins við ákvarðanir FME í málum Kviku, Fossa markaða og Arctica Finance hvað kaupauka varðar. Eilítill blæbrigðamunur er á málunum þremur en til einföldunar verður látið nægja að gera grein fyrir kjarna hvers um sig.

Í félögunum þremur hafði verið komið á fót mismunandi hlutaflokkum samkvæmt samþykktum. A-bréf voru „hefðbundin“ hlutabréf, ef svo má að orði komast, en B-bréf, og eftir atvikum C- og D-bréf, veittu ekki atkvæðisrétt í félögunum. Þau veittu aftur á móti forgang til hluta arðgreiðslna, stóðu oftar en ekki aðeins ákveðnum starfsmönnum til boða og voru háðir innlausn samkvæmt ákvörðun stjórnar. Slík ákvörðun var oft tekin í kjölfar þess að starfsmaður hætti.

Að mati FME var vinnuréttarsamband forsenda fyrir eignarhaldi á bréfunum, þau voru ekki ætluð almennum fjárfestum, lítil áhætta var í þeim fólgin og forgangurinn til arðgreiðslna leiddi það af sér að kaupverð hlutanna endurspeglaði ekki með nokkru móti raunverulegt verðmæti þeirra. Niðurstaða eftirlitsins var því á þann veg að þarna hefðu verið kaupaukagreiðslur, í andstöðu við lögbundið hámark, sem hefðu verið klæddar í búning arðgreiðslna. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.