Stingray Solutions í Noregi hefur þróað neðansjávartæki á grunni uppfinningar Norðmannsins Esben Beck, sem kallast Optical Delousing. Búnaðurinn finnur og drepur lús á lifandi eldislaxi án þess að skaða hann sjálfan. Aflúsunartækið hlaut nýverið Evrópsku uppfinningaverðlaunin.

Laxalús er 8-12 mm sníkjudýr sem festir sig á heilbrigðan lax og nærist á slími og roði hans. Lúsin getur skaðað ónæmiskerfi fiska og gert þá útsettari fyrir sjúkdómum. Ennfremur getur lúsin farið af eldislaxi á villtan lax og haft þannig áhrif á heilsufar villtra stofna.

Eldisstöðvar hafa fram til þessa einkum reitt sig á lyfið SLICE sem bætt er í laxafóður og drepur lúsina. Sá galli er á gjöf Njarðar að lúsin hefur myndað viðnám gegn lyfinu. Einnig hefur rutt sér til rúms að notast við hrognkelsaseiði sem éta lúsina af laxinum. Talsvert er framleitt af hrognkelsaseiðum hér á landi sem seld eru til eldisfyrirtækja í Noregi og Færeyjum.

Á grunni þessarar vitneskju þróaði Stingray tæki sem er 1,5 m á hæð og vegur 100 kg og sökkt er í eldiskvíar. Í tækinu er myndavélarkerfi sem tekur myndir af lúsum á löxum sem synda framhjá tækinu. Þegar búnaðurinn skynjar lús á laxinum beinir hann leisergeisla að henni og drepur hana án þess að fiskurinn skaðist.

Í notkun hjá 150 aðilum í Noregi

Maðurinn á bak við aflúsunarbúnaðinn frá Stingray Marine Solutions, Norðmaðurinn Esben Beck, hlaut nýlega Evrópsku uppfinningaverðlaunin fyrir þennan nýstárlega tæknibúnað. Viðurkenninguna hlaut fyrir þátt sinn í því að þróa fyrsta neðansjávarþjarkann sem með tölvusýn og reikniriti sem finnur og fjarlægir lús af laxi í eldiskvíum.

Uppfinning Becks hefur verið markaðssett af fyrirtækinu Stingray í Ósló sem setti búnaðinn á markað í Skotlandi fyrst árið 2016 eftir árangursríka notkun hjá yfir 150 eldisfyrirtækjum í Noregi..

„Þessi uppfinning er skýrt dæmi um hvernig hátæknibúnaður getur nýst rótgróinni atvinnugrein sem veltir gríðarlegum fjármunum,“ sagði Antonio Campinos, forstjóri Evrópsku einkaleyfaskrifstofunnar, við afhendingu viðurkenningarinnar.

„Umsókn Becks um einkaleyfi á uppfinningunni gerði honum kleift að afla nægilegs fjármagns til þess  þróa tækni sem stuðlar að dýravelferð og bætir um leið hag fiskeldisfyrirtækja.“