Drífa, eigandi útivistarvörufyrirtækisins Icewear, hefur keypt Víkurprjóns í Vík í Mýrdal. Fram kemur í tilkynningu að ætlunin sé að reka fyrirtækið í óbreyttri mynd.

Drífa var stofnað árið 1971 og rekur tvær verslanir í Reykjavík og Garðabæ auk þess að selja ferðamönnum vörur víða um land. Drífa-Icewear er einnig stór dreifinaraðili á ferðamannavörum sem eru seldar í flestum ferðamannaverslunum á landinu. Hjá Drífu starfa 14 manns.

Hjá Víkurprjóni starfa 17 manns. Fram kom í viðtali við Þóri Kjartansson, einn af stofnendum fyrirtækisins og framkvæmdastjóra þess, að reksturinn hafi gengið mjög vel í kjölfar gengishruns krónunnar og með fjölgun erlendra ferðamanna hingað til lands. Víkurprjón er með sauma og prjónastofu sem framleiðir sokka og peysur aðallega úr íslenskri ull ásamt því að reka verslun á staðnum sem aðallega selur til ferðamanna.

Víkurprjón hagnaðist um tæpar 14,4 milljónir króna árið 2010 samanborið við 24,3 milljónir árið 2009. Tekjur hafa aukist jafnt og þétt eftir hrun. Fremur litlar skuldir hvíla á rekstri Víkurprjóns. Heildarskuldir í lok árs 2010 voru 98,9 milljónir króna. Þar af voru rúmar 6,6 milljónir króna langtímaskuldir. Afgangurinn voru m.a. hlaupareikningslán, viðskiptaskuldir og ógreidd launatengd gjöld.