Drífa Snædal tekur sæti í stjórn Íbúðalánasjóðs í stað Stefáns Ólafssonar og hefur Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra þegar skipað hana í stjórnina. Eins og VB.is greindi frá á dögunum hættir Stefán Ólafsson vegna anna við önnur verkefni.

Drífa er fædd 5. júní 1973. Hún lauk námi sem tækniteiknari frá Iðnskólanum í Reykjavík 1998, viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 2003 og meistaraprófi í vinnurétti frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð 2012.

Drífa starfaði sem tækniteiknari hjá Verkfræðistofunni Afli og Orku ehf 1997 til 2000 og sem bókari á sömu verkfræðistofu frá 1999 til 2006. Á árunum 2003 til 2004 var hún fræðslu- og kynningarstýra Samtaka um Kvennaathvarf og síðar framkvæmdastýra samtakanna til 2006. Árið 2006 tók hún við sem framkvæmdastýra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og gegndi því starfi til ársins 2010. Frá árinu 2012 hefur hún verið framkvæmdastjóri Starfsgreiningarsambands Íslands.

Drífa var formaður Iðnnemasambands Íslands 1996 – 1998, sat í stjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 1999 – 2007 þar af ritari samtakanna 2005 til 2007. Varaþingmaður var hún á tímabilinu 1999 – 2003 og tók sæti á þingi í tvígang á tímabilinu. Drífa var varamaður í Mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar 2002 – 2006 og í stjórn Kvennaskólans 2006 – 2009. Hún sat í nefnd um breytingar á stjórnskipan 2009 og í nefnd um breytingar á lögum um fjármál stjórnmálaflokka það sama ár. Einnig sat hún í stjórn Fríhafnarinnar ehf frá júní 2009 -2011, í stjórn Borgarholtsskóla frá 2013 og í stjórn Hlaðvarpans – menningarsjóðs kvenna frá 2007, þar af gjaldkeri 2007 – 2009, formaður 2009 – 2011 og aftur frá árinu 2013.