Drífa ehf., rekstrarfélag Icewear, tapaði um 180 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við tæplega 320 milljón króna hagnað á árinu 2019. Rekstrartap félagsins nam 109 milljón króna á síðasta ári, samanborið við 437 milljón króna hagnað á árinu 2019. Heildarvelta félagsins 2020 nam 1,8 milljarða króna og dróst saman um 46,9% frá árinu áður.

Laun og launatengd gjöld námu um 636 milljónum króna á síðasta ári og lækkuðu um 38% milli ára. Félagið nýtti sér úrræði stjórnvalda á árinu, meðal annars hlutabótaleiðina.

Í ársreikning segir að rekstur félagsins á árinu hafi mótast af áhrifum Covid-19, sem meðal annars hafi leitt til tímabundinna lokana verslana. Jafnframt segir að netverslun hafi stóraukist og er gert ráð fyrir áframhaldandi vexti á því sviði.

Eigið fé í Drífu var um 224 milljónir króna á síðasta ári, samanborið við 404 milljón króna á árinu 2019. Í upphafi og lok árs var Ágúst Eiríksson eini hluthafi félagsins.