Jón von Tetzchner, stofnandi Opera Software og nú síðast Vivaldi Software, hefur í mörgu að snúast þessa dagana. Jón stofnaði Innovation House á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi í ágúst 2013 og strax í upphafi var ljóst að mikil eftirspurn var eftir plássi í frumkvöðlasetrinu. Jón hefur einnig fjárfest sjálfur í nýsköpunarfyrirtækjum og hefur því fylgst náið með starfsemi og umhverfi þeirra hér á landi undanfarin ár.

Auðveldara að fá fjármagn en áður

Hvernig finnst þér umhverfið vera orðið fyrir nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi núna?

„Þetta er mjög breið spurning, en tilfinningin er að þetta er að fara í rétta átt. Þegar ég var að koma hérna inn var ekki mikið í gangi. Núna eru komnir fleiri sjóðir og meiri aðstaða fyrir þessi fyrirtæki. Svo er mjög skemmtilegt að sjá fyrirtæki sem gengur vel og tekið er eftir. Það hafa verið nokkur tilfelli þar sem það gerist.“

Hvað er það sem mætti fara betur? Ef það ætti að breyta einhverju varðandi þetta umhverfi, hvað væri það?

„Hlutirnir eru að færast í rétta átt og ég held að þetta sé þá spurning um fjárfestingu, að það sé til peningur fyrir þessi fyrirtæki. Ég held að það sé rosalega mikið til af góðum hugmyndum, en þær þurfa að hafa aðgang að fjármagni.“

Íslendingar hafa meiri trú á sér en aðrir

Er eitthvað sem Ísland hefur fram yfir hin Norðurlöndin þegar kemur að frumkvöðlastarfi?

„Það er ákveðin orka í Íslendingum. Við höfum ekki í okkur þetta sem Norðmenn kalla „janteloven“. Maður má hafa trú á sjálfum sér á Íslandi og ég held að það sé mikilvægt. Hluti af því að byggja upp lítið fyrirtæki er að hafa trú á að maður geti gert það. Ég held að það sé rosalega mikilvægt að halda í það, að maður geti byggt upp hluti, þurfi ekki að selja um leið og það sé hægt að gera það hérna. Þetta veltur á því að maður hafi trú á sjálfum sér og sínu fólki.“

Nánar er spjallað við Jón í Frumkvöðlum, tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .