Í dag fór fram útboð á ríkisbréfum í flokkum RIKB 09 og RIKB 19.

Óskað var eftir tilboðum fyrir allt að 10 milljarða króna í fyrrnefnda flokkinn en alls bárust gild tilboð fyrir 5,8 milljarða að nafnverði. Tilboðum var tekið fyrir 3,7 milljarða króna. Hæsta verð tekinna tilboða var 96,465 (12,86% flatir vextir) og lægsta verð tekinna tilboða var 96,36 (13% vextir). Meðalverð tekinna tilboða var 96,41 (12,93% vextir). Frá þessu er greint í Vegvísi Landsbankans.

Í síðarnefnda flokknum, RKIB 19, var óskað eftir tilboðum fyrir allt að 6 milljarða króna að nafnverði. Samtals bárust gild tilboð að fjárhæð 12,75 milljarða króna og var tilboðum fyrir 6 milljarða samtals tekið. Meðalverð tekinna tilboða var 90,50 (10,25% flatir vextir), hæsta verð var 90,82 (10,19%) og lægsta verð tekinna tilboða var 90,41 (10,26%).

RIKB 19 flokkurinn, sem er tíu ára ríkisbréfaflokkur, hefur nú verið stækkaður í 35 milljarða króna. Í Vegvísi Landsbankans segir að eftirspurn eftir bréfum á borð við RIKB 19 hafi aukist mjög í vor eftir lækkun skiptivaxta á gjaldeyrismarkaði.

„Því vekur nokkra athygli hve dræm eftirspurnin eftir RIKB 09 bréfinu var í dag. Það kann að skýrast af því að bréfið er þrátt fyrir allt með nokkru lengri líftíma en það ríkisbréf sem mest eftirspurn hefur verið eftir, RIKB 08 bréfið sem er á gjalddaga í desember. RIKB 09 hentar því síður til að mæta skammtíma eftirspurn sem stafar af þrengingum á gjaldeyrisskiptamarkaði. Einnig hefur flæði um gjaldeyrisskiptamarkað aukist eitthvað á ný og skiptavextirnir hækkað,“ segir í Vegvísi.