Árni Mathiesen fjármálaráðherra tekur ekki undir tillögu Viðskiptaráðs um að lögleitt verði útgjaldaþak á ráðuneytin yfir heilt kjörtímabil.

Útgjaldaþak er eitt þeirra úrræða til úrbóta í ríkisfjármálum sem Viðskiptaráð lagði fram í skýrslu um útþenslu hins opinbera, en skýrslan var til umræðu á morgunverðarfundi ráðsins í gær.

Í erindi sínu á fundinum sagði Frosti Ólafsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, að lögfest útgjaldaþak myndi auka gagnsæi og aga í ríkisfjármálum og draga úr pólitískum þrýstingi á aukin útgjöld.

Árni Mathiesen sagði hins vegar að kjósendur sköpuðu nægilegt aðhald fyrir ráðuneytin og innleiðing slíkra reglna væri því óþörf.

Það úrræði sem Frosti lagði einna mesta áherslu á var að útgjöld ríkisins miðuðust við nafnvöxt og yrðu ekki leiðrétt fyrir verðbólgu eins og nú er gert. Sagði Frosti að slíkt viðmið myndi virka sem sjálfvirk sveiflujöfnun þar sem stjórnvöld þyrftu að draga saman seglin ef verðbólga yrði yfir verðbólgumarkmiði.

Undirtektir stjórnmálamanna á fundinum voru þó misjafnar. Pétur Blöndal, alþingismaður og formaður efnahagsnefndar, sagði að slík útgjaldaregla væri góðra gjalda verð en taldi að pólitískt yrði ógjörningur að koma henni á. Ef reglan væri við lýði í dag myndi hún þýða töluverða raunlækkun ríkisútgjalda sem Pétur sagði að kjósendur myndu sjálfsagt ekki samþykkja í árferði eins og ríkti í dag.