Fyrrverandi deildarstjóri garðyrkjudeildar Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið ákærður fyrir meintan fjárdrátt, að því er sagði í frétt Ríkissjónvarpsins. Er maðurinn sagður hafa dregið sér um 28 milljónir króna á tímabilinu 2003 til 2008 og gaf hann sjálfur út 58 tilhæfulausa reikninga í þessu skyni.

Hann mun þó ekki hafa dregið sér féð sér sjálfum til hagsbóta, heldur til að greiða tveimur starfsmönnum Garðyrkjufélags Íslands laun. Hann var á þessum tíma formaður félagsins og er hann sagður hafa notað féð til að greiða tveimur konum, sem störfuðu hjá félaginu á tímabilinu, laun. Manninum var sagt upp störfum hjá OR haustið 2008.